Útileikir barna í 100 ár

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli fullveldis Íslands hefur Byggðasafnið í Görðum, í samstarfi við Muninn kvikmyndagerð, gert stutta heimildarmynd um útileiki barna. Árið 1917 kom út bókin ,,Kvæði og leikir handa börnum" í samantekt Halldóru Bjarnadóttur og var hún endurútgefin aftur síðar. Bókin var ein sú fyrsta sinnar tegundar sem rituð var á íslensku um þetta efni og er mikilvæg heimild um leiki barna á þessum tíma. Bókin varð kveikjan að gerð heimildarmyndarinnar.

Heimildarmyndinni er ætlað að varpa ljósi á útileiki barna og hvernig þeir hafa breyst í áranna rás. Í leiðinni gefst tækifæri til að kynna gamla útileiki fyrir nýjum börnum.

Hátíðarsýning heimildarmyndarinnar fer fram í safnhúsi Byggðasafnsins og verður myndin sýnd bæði kl. 15:00 og 16:00.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og #fullveldi1918

Ókeypis aðgangur.