Opin svæði og gönguleiðir

Akrafjall

Akrafjall er einkar formfagurt og af því er mjög víðsýnt. Vinsælar gönguleiðir eru upp á Háahnúk (555m), sem er syðri tindurinn. Geirmundartindur (643m) er aðeins erfiðari til uppgöngu. Á Háahnúki, Geirmundartindi og Guðfinnuþúfu eru gestabækur sem mælt er með að göngufólk kvitti í. Akrafjall er eitt þeirra fjalla sem tiltölulega auðvelt er að ganga á og hentar því fjölskyldufólki sérstaklega vel. Það þarf ekki mikla reynslu eða dýran útbúnað til að ganga á Akrafjall þó nauðsynlegur hlífðarfatnaður og lágmarks þrek verði að vera til staðar. Að lokinni göngu er tilvalið að fara niður á Langasand, gera þar teygjuæfingar og láta svo þreytuna líða úr sér í heita pottinum og sundi í Jaðarsbakkalaug.