Opin svæði og gönguleiðir

Breiðin

Breiðin er syðsti hluti Akraness og þar er að finna einn elsta steinsteypta vita landsins sem var reistur 1918. Vitarnir á Breiðinni eru tveir talsins en Akranesviti var reistur á árunum 1943-1944 og hefur hann verið opinn almenningi yfir sumartímann án endurgjalds. Á Breið eru líka gamlir skreiðarhjallar og greina má steinlagt stakkstæði þar sem saltfiskur var breiddur út á góðviðrisdögum áður fyrr. Á Breiðinni er fagurt útsýni yfir allan Faxaflóann, sérstaklega ef farið er alla leið upp í Akranesvita en þá sést frá Reykjanesskaga að Snæfellsjökli í góðu skyggni. Við vitana getur norðurljósadýrðin á veturna verið alveg einstök upplifun í góðum veðurskilyrðum og einnig er mjög fallegt að vera uppi í Akranesvita og fylgjast með sólinni setjast, njóta útsýnisins og litadýrðarinnar allan ársins hring.