Barnamenningarhátíð

Höfðavík

Víkin dregur nafn sitt frá torfbæ sem stóð þar frá 1889. Víkin var mikilvægur lendingarstaður báta áður fyrr enda góð grynning og lítið um stórt grjót. Höfðavíkin er ein af fáum fjörum á Akranesi sem ekki er varin með stóru sjóvarnargrjóti heldur eru bakkarnir náttúrlegir og fjaran er hrein sandfjara þar sem æðarfuglar, straumendur og hávellur sækja í var. Fuglalíf er gífurlega fjölbreytt á þessu svæði, hvort sem það er á landi eða sjó. Afrennslislækur rennur í gegnum fjöruna miðja sem fuglar sækja í til að drekka. Sjórinn við fjöruna getur verið ansi straumþungur en ekki er óalgengt að sjá forvitna seli dúkka upp hausnum og virða fyrir sér landlífið. Sjórinn út af Höfðavíkinni er kristaltær og stutt niður á botn þar sem oft er hvítur skeljasandur. Það getur því verið stórbrotið að kafa á þessu svæði og virða fyrir sér lífið á sjávarbotni í sínu náttúrulega umhverfi.

Skemmtileg afþreying í þessari fjöru:

  • Mikið og fjölbreytt fuglalíf er á svæðinu og því tilvalið að taka með sér sjónauka og rannsaka hinar ýmsu tegundir fugla.
  • Stundum sjást selir í fjörunni, hver veit nema þið rekist á einn slíkann.
  • Það getur verið skemmtilegt að týna skeljar og steina í fjörunni.
  • Þó sjórinn sé kaltur getur verið skemmtilegt að dýfa tánum í tærann sjóinn og bussla í góðviðri.
  • Í nágrenni við Höfðavík má skoða Elínarhöfða og Elínarsæti.

Barnamenningarhátíð 2024

Á barnamenningarhátíðinni lögðum við áherslu á náttúruperluna sem faðmar bæinn okkar – Fjörurnar okkar. Börn í leik- og grunnskólum Akraneskaupstaðar fengu það verkefni að skapa sitt eigið sæskrímsli í völdum fjörum. Þannig tengjast börnin náttúrunni okkar á skemmtilegan og skapandi hátt og við kynnumst fjörunni einnig í gegnum þeirra augu.

Stuttmynd um skrímslið í Höfðavík - Kvikmyndasmiðja Barnamenningarhátíðar (13-18 ára).

Bergur Líndal Guðnason og Þórður Helgi Guðjónsson kvikmyndagerðarmenn fóru með hóp unglinga úr 8,9 og 10 bekk á Akranesi og tóku upp Stuttmynd í Höfðavík. Hugmyndin að þessari mynd var unninn að hluta af Bergi og Þórði en svo fengu krakkarnir frjálsar hendur í framkvæmd. Áður en farið var af stað í tökur fyrsta daginn fengu ungmennin að læra um meginatriði kvikmyndagerðar og fengu þau að kynnast búnaðinum sem notaður var í verkefnið, í sameiningu ákváðu þau svo hlutverk hvers við framkvæmd verkefnisins.

Hópurinn myndaði allt efni í Höfðavík og að tökum loknum tóku við brellu tökur þar sem búið var til sæskrímsli og tekið upp á Green Screen, það fór allt fram í Gamla Landsbankahúsinu, þá var einnig farið yfir grunnatriði í lýsingu og notkun ljósa við kvikmyndagerð. 

Þetta var fróðlegt og skemmtilegt ferli og ánægjulegt að fylgjast með áhuganum og sköpunargleðinni hjá krökkunum, afraksturinn ber þess merki - Skemmtilegt og skapandi stuttmynd um sæskrímsli í Höfðavík.

Hér má horfa á stuttmyndina í heild sinni:

Fjörutegundir: Setfjörur – Líflitlar sandfjörur.

Fuglar: Æðarfugl, Tjaldur, Stelkur, Sendlingur, Kría.

Kuðungar: Klettadoppa, Þangdroppa, Beitukóngur, Nákuðungur.

Þang: Klóþang, Bóluþang, Beltisþari, Hrossaþari.

Skelfiskur: Skollakroppur (Ígulker), Bogkrabbi

Staðsetning

Staðsetning á Google maps