Hallgrímur Ólafsson, leikari (2022)

Akraneskaupstaður óskar ár hvert eftir tillögum frá bæjarbúum um hver ætti að fá titilinn bæjarlistamaður Akraness. Menningar- og safnanefnd fer  í kjölfarið vandlega yfir tilnefningarnar og leggur fram tillögu til bæjarstjórnar um hvaða einstaklingur eða hópur hljóti titilinn bæjarlistamaður Akraness það árið. Það er bæjarstjóri sem afhendir bæjarlistamanni viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á 17. júní ár hvert.

Árið 2022 var leikarinn Hallgrímur Ólafsson Bæjarlistamaður Akraness.

Hallgrímur er fæddur og uppalinn á Akranesi, hann gekk í Grundaskóla á æskuárunum og fór þaðan í FVA en var rekinn þaðan fyrir einstaka hæfileika í að eyða tíma í skipulagningu viðburða nemendafélagsins á skólatíma. Þrátt fyrir brösótt gengi í FVA lauk hann prófi í leiklist frá listaháskóla Íslands 2007 og vann síðan með leikfélagi Akureyrar 2007-2008 og í Borgarleikhúsinu 2008-2014.

Hallgrímur hefur síðan starfað með Þjóðleikhúsinu frá árinu 2014. Á leikferlinum hefur hann leikið í hátt í 40 leiksýningum frá útskrift en einnig í ótal sjónvarpsþáttum og bíómyndum og fengið tilnefningu til Eddunnar fyrir leik sinn í Gullregni.

Sem tónlistarmaður hefur Hallgrímur komið fram undir listamannsnafninu Halli Melló og honum til heiðurs hefur Leiklistaklúbbur fjölbrautaskólans fengið nafnið „Melló“ þar sem Hallgrímur hefur margoft sinnt leikstjórn m.a. á sýningunum Draumnum, Grease, Gauragangi og fleiri sýningum.

Hallgrímur er stoltur Skagamaður og hefur alltaf verið tilbúinn að koma í sinn gamla heimabæ til að sinna ýmsum verkefnum s.s að vera viðburðastjóri Írskra daga og að koma fram við hin ýmsu tækifæri. Það er óhætt að segja að hann hafi lagt sitt á vogaskálarnar fyrir menningu og list á Akranesi og er því vel að þessari nafnbót kominn.

Eftirtaldin hafa fengið titilinn bæjarlistamaður Akraness