Fjölskylduhátíðin Írskir dagar

Skagamenn eru af írskum uppruna, það fer ekkert á milli mála. Þeir láta sér fátt fyrir brjósti brenna, eru lífsglaðir og skemmtilegir heim að sækja og miklir baráttujaxlar, ekki síst á fótboltavellinum! Írar námu land á Skaga á fyrstu árum Íslandsbyggðar en nafnið Akranes kom til síðar og er dregið af kornrækt og akuryrkju sem þótti heppileg á hinu frjósama landi sem er á nesinu.

Í byrjun júlí ár hvert halda Skagamenn hátíðlega hina svokölluðu Írsku daga til að minnast hinnar keltnesku arfleifðar sinnar og gera sér glaðan dag um leið. Þessa daga eru brottfluttir Skagamenn kallaðir heim og á Írskum dögum er fjölskyldufólk sérstaklega boðið velkomið í heimsókn á Akranes. Fólk sækir að úr öllum áttum til að drekka í sig írsk-íslenska menningarblöndu, sýna sig og sjá aðra eða hitta vini og ættingja. Á Írskum dögum fer Akranes í sparibúninginn sem er að sjálfsögðu í írsku fánalitunum. Alls staðar eru fánar og flögg, borðar og skraut sem minnir á Írland. Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð með fjölbreyttri skemmtun fyrir alla; íþróttir, markaður, strandlíf, dorgveiði, sandkastalakeppni og síðast en ekki síst keppnin um rauðhærðasta Íslendinginn. Út um allan bæ eru grillveislur en aðalhátíðarsvæðið er að sjálfsögðu í miðbænum og á Langasandi.  Hin árlega Lopapeysa er svo á sínum stað á hafnarsvæðinu. Íslendingar nær og fjær og erlendir gestir eru hér með boðnir sérstaklega velkomnir á Írska daga.

Ástæðan fyrir því að á Akranesi eru haldnir Írskir dagar en ekki eitthvað allt annað er sú að það voru Írar sem námu land á Skaganum. Í bókinni Akranes – saga og samtíð er þennan texta að finna: „Litlu eftir 880 komu af Írlandi tveir bræður, þá talsvert fullorðnir, ásamt uppkomnum börnum og öðru fólki. Eiginkvenna þeirra er eigi getið. Þessir bræður voru Þormóður og Ketill Bresasynir, bornir og barnfæddir á Írlandi, en af norskum ættum. Bresasynir námu Akranes allt, Þormóður sunnan Akrafjalls og Ketill norðan. Fyrir í landnáminu voru Hrosskell nokkur Þorsteinsson og sonur hans Hallkell, sem numið höfðu land á Akranesi og ráku Bresasynir þá brott. Þormóður reisti sér bæ á Innra-Hólmi, en óvíst er um bústað Ketils, þótt álíta megi að hann hafi búið á Ytra-Hólmi. Á Innra-Hólmi bjó síðan dóttursonur hans, Ásólfur alskik Konálsson, munkur og sennilega prestvígður. En af honum er nokkur saga. Sonur Ketils var Jörundur hinn kristni og reisti hann bú í Jörundarholti þar sem síðar heitir í Görðum. Einn afkomenda hans var Þorgeir Hávarsson, ein kunnasta sögupersónan í Fóstbræðrasögu og Halldór Laxness túlkar á eftirminnilegan hátt í skáldverki sínu Gerplu. Þá er ógetið tveggja írskra manna er fengu land í landnámi Bresasona. Annar var Bekan og byggði hann bæ sinn á Bekanstöðum. Hinn var Kalman er bjó í Katanesi og Kalmansá er við kennd. Hann hafði þó skamma viðdvöl, því við það að tveir synir hans drukknuðu í Hvalfirði flutti hann búferlum að Kalmanstungu og drukknaði síðan sjálfur í Hvítá á leið til fundar við frillu sína.“

Helstu upplýsingar

Dagskrá Írskra daga 2024

Staðsetning

Víðsvegar um bæinn

Hafa samband

Facebooksíða Írskra daga

Instagramsíða Írskra daga