Álfaborgir eftir Guttorm Jónsson

Listaverkið við Mánabraut fyrir utan skrifstofu Sementsverksmiðjunnar er nefnt „Álfaborgir“ og er eftir Guttorm Jónsson. Verkð er sett upp af Sementsverksmiðjunni árið 1984 sem einnig fékk listamanninum efnið til verksins sem gert er úr trefjasteypu.

Guttormur var sonur Gretu og Jóns Björnssonar en Greta skreytti m.a. Akraneskirkju að innan á sínum tíma og þau hjónin saman Innra-Hólmskirkju og mörg fleiri guðshús á landinu. Einnig skreyttu þau Bíóhöllina á Akranesi þegar hún var byggð árið 1942. Guttormur var húsasmiður að mennt og sótti námskeið hjá módel- og höggmyndadeild Myndlistaskólans í Reykjavík á árunum 1979-1983 en er annars að mestu sjálfmenntaður í list sinni. Hagleikur hans hefur einnig notið sín í starfi en hann var safnvörður við Byggðasafnið í Görðum um árabil. Guttormur hefur tekið þátt í og haldið margar sam- og einkasýningar, bæði á Akranesi, í Reykjavík og víðar. –hann var bæjarlistamaður Akraness árin 1994 og 1995. Guttormur lést árið 2014.

Staðsetning

Sementsverksmiðjan, Mánabraut.