Glerverk eftir Leif Breiðfjörð

Á þeirri hlið Safnaðarheimilisins sem snýr að Akraneskirkju er glerlistaverk, steindur gluggi, eftir Leif Breiðfjörð.

Leifur er fæddur árið 1943 í Reykjavík og stundaði nám m.a. í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í Skotlandi og Englandi.

Mörg glerlistaverka hans er að finna bæði hérlendis og erlendis, í opinberum byggingum og kirkjum, m.a. í Leifsstöð og Þjóðabókhlöðunni, í Hallgrímskirkju og á gafli yfir vesturdyrum í St Giles dómkirkjunni við the Royal Mile, í Edinborg, Skotlandi.

Glerlistaverkið hérna er til minningar um Lilju Pálsdóttur, eiginkonu séra Jóns M. Guðjónssonar, sem var prófastur í Borgarfjarðarprófastdæmi og sóknarprestur á Akranesi um áratugaskeið. Það var séra Jón og börn þeirra hjóna, sem færðu safnaðarheimilinu listaverkið árið 1987.

Steindi glugginn í framhlið hússins sem áður var bankahús Glitnis við Kirkjubrautina er eftir Leif Breiðfjörð. Íslandsbanki, undanfari Glitnis, festi kaup á þessu sérsmíðaða glerlistaverki Leifs sem sett var upp árið 2001. Það er 29x220 sentimetrar að stærð og þarna ætlað „Til skrauts og ánægju“ að sögn bankamanna.

Staðsetning

Vinaminni á Akranesi