Hnöttur eftir Philippe Ricart

Listaverkið „Hnöttur“ við leikskólann í Teigarseli við Laugarbraut er eftir Philippe Ricart. Hann er fæddur árið 1952 og kom til Íslands árið 1979 þar sem hann hefur búið síðan. 

Verkið var sett upp 1998 og er unnið í eir og um það segir listamaðurinn:

„Verkið sýnir tvö börn í boltaleik; hnötturinn sem þau halda á lofti á milli sín er líka „fjöreggið“, menningararfleifðin, sem þau fá frá eldri kynslóðum.

 Við íbúð Philippe Ricart við Háholt má sjá verk hans „Jarðbundinn“ sem fyrst var sýnt á yfirlitssýningu ýmissa lista- og handverksmanna á Akranesi í tengslum við 50 ára kaupstaðarafmæli Akraness 1992. Hér sést verkið fest í jörð og – því nafnið!

Við Elínarhöfða má sjá verk Philippe Ricart „Veiðar“ sem er hluti af sýningunni „Strandlengjan“ sem var sett upp árið 2000 og var framlag Akraness í verkefninu „Reykjavík, menningarborg Evrópu 2000“.

Philippe hannar og vinnur margskonar hluti, listmuni og nytjahluti, og hefur haldið fjölda sýninga á verkum sínum og tekið þátt í samsýningum með öðrum listamönnum. Philippe var bæjarlistamaður Akraness 1996.

Staðsetning

Leikskólinn Teigasel