Minnisvarði um séra Jón M. Guðjónsson eftir Valdimar Jónsson

Hér við vesturgafl Garðahússins, elsta steinsteypta húss sinnar tegundar á landinu og þótt víðar væri leitað er minnisvarði um títtnefndan Jón M. Guðjónsson en hann lést árið 1994.

Minnisvarðinn sem er þrískiptur var reistur árið 2005 í tilefni af því að eitt hundrað ár voru þá liðin frá fæðingu séra Jóns. Það var Valdimar, sonur séra Jóns, sem næst þessari vinnu kom og sá um hönnun minnisvarðans og útfærslu hans.

Miðhlutinn ber dökka útlínumynd (silúettu) með vangasvip séra Jóns, gerða af Valdimar (1972) og á þennan hluta er m.a. letrað:

Hugsjónamaður. –Frumkvöðull í slysavörnum, byggðasafni og mörgum öðrum menningarmálum.

Á drangi vinstra megin við miðhlutann, séð frá okkur, er áletrun sem vissulega tengist starfi séra Jóns að slysavörnum, „Sjómannslíf í herrans hendi / helgast fósturjörð“ – úr „Sjómannasöng“ eftir Steingrím Thorsteinsson.

Drangurinn til hægri er með tilvitnun í kvæði Einars Benediktssonar „Aldamót“ –og snertir sú tilvitnun áhuga Jóns á Safnamálum og vilja hans að varðveita vitnisburð um gamla tíma svo að upplýsa megi kynslóðir um liðna tíð.

Það fagra, sem var,

skal ei lastað og lýtt

en lyft upp í framför,

hafið og prýtt.

Að fortíð skal hyggja,

ef frumlegt skal byggja,

á fræðslu þess liðna

sést ei, hvað er nýtt.

 

„Klukkuturninn“ rauðleiti í grafreitnum að Görðum var teiknaður af Séra Jóni M. Guðjónssyni. Lokið var við að reisa minningarturninn nálægt ætluðu kórstæði gömlu kirkjunnar í Görðum og var turninn vígður af herra biskupi Ásmundi Guðmundssyni árið 1958. Við jarðsetningu að Görðum var jafnan klukku hringt frá turni þessum. Árið 1896 mun kirkjan að Görðum hafa verið lögð niður er ný sóknarkirkja var vígð í landi Bjargs – niðri á Skaga – Akraneskirkju, og stendur sú enn við Skólabrautina.

Staðsetning

Við Garðahús á Byggðasafninu í Görðum