Skvísurnar eftir Bjarna Þór Bjarnason og Guðna Hannesson

Bjarni Þór listamaður og Guðni Hannesson Ljósmyndari eru höfundar að útskurðarverkinu „Skvísurnar“ við Skólabraut, en verkið stendur á milli húsa þeirra. Verkið er gert úr rekaviði og var sett upp árið 2001 og er m.a. ætlað að minna á þær heiðurskonur Þóru Guðmundsdóttur og Guðrúnu Bjarnadóttur, sem í þann mund voru að flytja að Dvalarheimilinu Höfða eftir gott nábýli við Bjarna Þór og Guðna árum saman þar sem heimili þeirra voru handan götunnar að Skólabraut 19. Séra Eðvarð Ingólfsson flutti þeim stöllunum, Þóru og Guðrún, falleg orð við afhjúpun verksins.

Bjarni Þór Bjarnason fæddist á Akranesi árið 1948 og ólst hér upp. Hann er sonur hjónanna Þórunnar Friðriksdóttur og Bjarna Eggerstssonar frá Kringlu, en það hús stendur enn, að nokkru breytt við Mánabraut hér í bæ. Bjarni var bæjarlistamaður Akraness árið 1997.
Bjarni stundaði nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og einnig m.a. í Danmörku. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á verkum sínum, á Akranesi og víðar.

Guðni Hannesson fæddist á Akranesi árið 1963 og ólst hér upp. Hann er sonur hjónanna Hannesar og Stellu. Guðni lærði atvinnuljósmyndun hjá Guðmundi Ingólfssyni og átti lengi ljósmyndastofuna Myndsmiðjuna hér á Akranesi ásamt Ágústu Friðriksdóttur. Guðni hefur haldið einka- og samsýningar á Akranesi og víðar.

Staðsetning

Milli húsa á Skólabraut 20 og 22