Héraðsskjala- og bókasafn Akranes bjóða krökkum á öllum aldri að koma á safnið á opnunartíma og rýna í nokkur valin verk úr listasafni Akraneskaupstaðar. Á staðnum verða ákveðnar spurningar og svarbox sem krakkarnir geta komið sinni upplifun á blað. Eftir barnamenningarhátíðina verða svörin hengd í kringum verkin fyrir gesti að lesa.
Stuðst er við fræðsluefni frá Listasafni Íslands, verkefnið kallast Sjónarafl - Þjálfun í myndlæsi. Það er skemmtilegt frá því að segja að allar mennta- og menningarstofnanir bæjarins fengu bókina að gjöf frá Barnamenningarhátíð Akraneskaupstaðar.
Þjálfun í myndlæsi eykur einnig hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og gagnrýnni hugsun.
Fræðsluverkefnið Sjónarafl felur í sér valdeflingu þátttakenda til að skilja og takast á við myndrænar upplýsingar og heiminn eins og hann kemur þeim fyrir sjónir. Í myndlæsi er unnið markvisst með umræðu- og spurnaraðferð kennslufræðinnar þar sem þátttakendum er gefið gott rúm til að tjá sig og lýsa eða túlka það sem þeir sjá.
Barnamenningarhátíð Akraneskaupstaðar er styrkt af Barnamenningarsjóði og SSV.